Erlent

Beðið úrslita í Kongó

Frá kjörstað í Kinshasha í gær.
Frá kjörstað í Kinshasha í gær. MYND/AP

Síðari umferð forsetakosninganna í Kongó fór fram í gær og stóð baráttan milli sitjandi forseta og fyrrverandi leiðtoga uppreisnarmanna. Þetta voru fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í landinu rúma fjóra áratugi. Tveir féllu þegar lögregla skaut á mótmælendur við kjörstað í norðurhluta landsins í gær.

Enginn frambjóðandi í fyrri umferðinni fékk tilskilinn meirihluta þegar íbúar í Kongó gegnu að kjörborðinu í lok júlí. Það var þá í fyrsta sinn sem efnt var til lýðræðislegra kosninga í landinu í rúma fjóra áratugi. Þá féllu á þriðja tug manna í átökum sem blossuðu upp þegar úrslit voru ljós. Kjósa þurfti því á nýjan leik milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði, sitjandi forseta, Joseph Kabila, og Jean-Pierre Bemba, fyrrverandi leiðtoga uppreisnarmanna. Kabila er talinn sigurstranglegir. Hann halut fjörutíu og fimm prósent atkvæða í fyrri umferðinni en Bemba tuttugu prósent. Frambjóðendurnir hafa báðir lofað friðsamlegum kosningum og heitið því að virða niðurstöður þeirra.

Margir íbúar og stjórnmálaskýrendur í Kóngo eru efins um að svo verði.

Ekki var langt liðið frá því að kjörstaðir voru opnaðir í gær þar til að blóði hafði verið úthelt. Stuðningsmenn Bemba lögðu kjörstað í rúst þegar stuðningsmenn sitjandi forseta þar voru sakaðir um svik. Lögregla skaut þá að byssum sínum til að dreifa mannfjöldanum. Ekki vildi betur til en svo að tveir menn urðu fyrir kúlum lögreglunnar og féllu.

Um það bil tuttugu og fimm milljón íbúa í Kongó voru á kjörskrá og kjörstaðir fimmtíu þúsund víðsvegar um landið. Talning atkvæða stendur nú yfir en ekki er búist við endanlegum úrslitum fyrr en eftir um viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×