Erlent

Óveður í Evrópu

22 menn hafa látist í miklum flóðum í suðaustanverðu Tyrklandi undanfarinn sólarhring. Þá rak norskan olíuborpall stjórnlaust í Norðursjó í fárviðri sem gekk yfir norðanverða Evrópu í nótt.

Himnarnir hafa grátið yfir Tyrklandi undanfarna daga og vatnið á jörðu niðri vaxið eftir því. Staðfest er að 22 hafi týnt lífi í flóðunum og tuga er ennþá saknað. Versta slysið varð í Diyarbakir-héraði í suðaustanverðu landinu en þar sópaði vatnselgurinn rútu með fjórtán manns innanborðs út af veginum en fólkið var á leið í brúðkaup í héraðinu. Í Istanbul, stærstu borg landsins, hefur vatn flætt um götur og fjöldi fólks festist því í húsum sínum. Umtalsvert tjón hefur jafnframt orðið á ferðamannastöðum við Miðjarðarhafið.

Í norðanverðri Evrópu hefur veðrið ekki verið mikið skárra undanfarinn sólarhring en þar gekk fárviðri yfir í nótt. Festar norsks olíuborpalls slitnuðu í veðurofsanum í Norðursjó þar sem dráttarbátur var með hann í togi. Verið er að flytja þá 75 sem eru á pallinum um borð í varðskip en þeir eru ekki taldir í hættu. Íbúar nærliggjandi landa fóru ekki varhluta af óveðrinu. Þannig fór Hamborg í Þýskalandi nánast á kaf vegna mikilla vatnavaxta í Saxelfi en skemmdir urðu þó ekki eins miklar og óttast var í fyrstu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×