Erlent

Hugsanlegt að Bandaríkjamenn hætti að aðstoða Níkaragva

Allt útlit er fyrir að Daniel Ortega, leiðtogi Sandinista, hafi sigrað í forsetakosningunum í Níkaragva sem fram fóru í gær. Verði þetta úrslitin getur svo farið að Bandaríkjamenn láti af aðstoð við þetta fátæka land.

Ortega tapaði í forsetakosningum 1996 og 2001 en allt er þá þrennt er því nú virðist Daniel Ortega ætla að hafa árangur sem erfiði. Til að sigra í kosningunum þurfa frambjóðendur að fá að minnsta kosti 35 prósent, annars verður boðað til annarrar umferðar í næsta mánuði.

Þegar fimmtán prósent atkvæðanna höfðu verið talin í nótt höfðu 40 prósent kjósenda greitt Ortega atkvæði sitt. Næstur í röðinni var Eduardo Montealegre, fulltrúi frjálslyndra, með um 33 prósent þannig að forskot Ortega er allgott.

Sextán ár eru frá því Ortega hrökklaðist úr embætti en borgarastyrjöld hinnar vinstrisinnuðu Sandinista-hreyfingar hans og Contra-skæruliða, sem Bandaríkjamenn studdu með ráðum og dáð, einkenndu síðustu ár stjórnartíðar hans. 30.000 manns létust í þeim átökum.

Kosningarnar í gær gengu sæmilega utan þess að nokkrir kjörstaðir voru opnaðir seint og því myndaðist þar örtröð þegar þeim var loks lokað. Í varfærinni yfirlýsingu sinni seint í gærkvöld bentu bandarísk stjórnvöld á þessa staðreynd og sögðu því of snemmt að segja til um hvort um sanngjarnar kosningar hefði verið að ræða.

Fari svo að Sandinistar komist aftur til valda óttast margir að Bandaríkjamenn muni hætta stuðningi við þessa næstfátækustu þjóð vesturhvels jarðar. Á hinn bóginn er öruggt að Hugo Chavez, forseti Venesúela, mun fagna þessum nýju bandamönnum í álfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×