Leikur Indiana Pacers og Philadelphia 76ers verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Digital Ísland á miðnætti í kvöld. Leikurinn er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að Philadelphia er eitt þriggja liða í NBA sem enn hafa ekki tapað leik og hefur þessi byrjun Philadelphia komið nokkuð á óvart.
Philadelphia var alls ekki spáð góðu gengi fyrir tímabilið og endalausir orðrómar um það að liðið ætlaði að skipta Allen Iverson í burtu gerast æ háværari. Hinn smávaxni leikmaður lætur slíkt þó ekki hafa áhrif á sig og skorar grimmt eins og alltaf. Þá hefur Kyle Korver verið að gera fína hluti með liðinu eftir að hann var settur á varamannabekkinn.
Indiana hefur einnig gengið ágætlega og hefur unnið tvo af þremur leikjum sínum - síðast vann liðið New York örugglega - en þó hefur Indiana tapað tveimur síðustu leikjum sínum gegn Philadelphia.