Verið er að leggja síðustu hönd á formlegt tilboð Eggerts Magnússonar og félaga í enska knattspyrnufélagið West Ham. Tilboðið verður kynnt opinberlega innan sólarhrings. Samkvæmt Sky sjónvarpsstöðinni er ætlunin að bjóða 75 milljónir punda fyrir félagið, jafnvirði 10 miljarða króna, auk þess sem yfirteknar verða um þriggja miljarða króna skuldir félagsins.
Gert er ráð fyrir að Eggert Magnússon verði á morgun orðinn nýr stjórnarformaður á Upton Park í London, heimavelli West Ham.
Stærstu hluthafar féllust fyrir helgi á óformlegt tilboð Eggerts og félaga, og gert er ráð fyrir að formlega tilboðinu verði tekið og gengið frá kaupunum á morgun. Viðtökur á markaði munu þó ráða nokkru um það, en tilkynning um tilboðið verður send bresku kauphöllini um leið og tilboðið verður kynnt á fréttamannafundi á morgun.