Spænsk útvarpsstöð greindi frá því í gær að knattspyrnusambandið þar í landi væri þegar búið að ákveða að reka landsliðsþjálfarann Luis Aragones og sagði að fyrrum landsliðsþjálfarinn Jose Antonio Camacho yrði ráðinn sem eftirmaður hans á fundi sem fyrirhugaður væri þann 14. desember nk.
Spænska knattspyrnusambandið sendi fljótlega frá sér yfirlýsingu þar sem þessum fréttum var vísað til föðurhúsanna, en þar á bæ eru menn orðnir leiðir á endalausum árásum á landsliðsþjálfarann.
Aragones fór vel af stað með spænska landsliðið þegar hann tók við liðinu árið 2004 og tapaði ekki í fyrstu 25 leikjunum undir hans stjórn. Liðið féll svo fyrr úr keppni en ásættanlegt þótti í Þýskalandi í sumar og ekki hefur gengið verið glæsilegt í síðustu leikjunum í undankeppni EM, þar sem spænskir hafa tapað fjórum af síðustu sjö landsleikjum sínum. Þá er liðið aðeins í fimmta sæti í riðli okkar Íslendinga í undankeppni EM og á það á hættu að komast ekki á EM.