Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segist ekki hafa áhyggjur af því þó Manchester United hafi enn þriggja stiga forystu á sína menn á toppi ensku úrvaldsdeildarinnar og bendir á að Chelsea hafi spilað mun erfiðari leiki í deildinni til þessa.
"Ég held að við verðum komnir á toppinn áður en langt um líður og ég er sáttur við að vera aðeins þremur stigum á eftir United, því við höfum spilað mun erfiðari leiki en þeir. Nú er kominn tími til að vinna eins marga leiki í röð og við getum og koma okkur á toppinn sem fyrst. Ég er viss um að menn í herbúðum United eru ósáttir við að hafa bara þriggja stiga forskot í deildinni eftir þessa góðu sigurgöngu sína undanfarið," sagði Mourinho.
Alex Ferguson er ágætlega bjartsýnn á að sínum mönnum takist að halda toppsætinu. "Við vitum að það er mikið eftir af tímabilinu en ég held að strákarnir séu að átta sig á því að þeir eru í góðri aðstöðu til að afreka frábæra hluti í þessari deild. Það sem skiptir mestu máli núna er að við erum í þeirri aðstöðu að vera að horfa um öxl og verja forskot okkar fyrir Chelsea og það er betri aðstaða en við höfum notið síðustu tvö ár," sagði Ferguson.