Herman Hreiðarsson og félagar í Charlton lyftu sér af botni ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld þegar liðið lagði Blackburn nokkuð verðskuldað á heimavelli sínum með marki frá Talal El Karkouri beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma. Tottenham lagði Middlesbrough 2-1 þar sem tveir leikmenn fengu að líta rauða spjaldið.
Dimitar Berbatov kom Tottenham yfir í upphafi síðari hálfleiks með glæsilegu skoti, en varnarmaðurinn Robert Huth jafnaði metin fyrir gestina sem áttu undir högg að sækja í leiknum. Skömmu síðar kom varamaðurinn Robbie Keane Tottenham yfir á ný, en hann þurfti síðar að fara meiddur af velli. Mark Halsey dómari náði líka að koma sér í fyrirsagnirnar þegar hann vísaði Didier Zokora og George Boateng af velli fyrir slagsmál.