Fótbolti

Borgarstjórinn í Róm ósáttur við hræðsluáróður Man. Utd

Stuðningsmönnum United hefur verið sagt að fara varlega.
Stuðningsmönnum United hefur verið sagt að fara varlega. NordicPhotos/GettyImages

Borgarstjórinn í Róm, Walter Veltroni, er langt frá því að vera sáttur við forráðamenn Manchester United. Ástæðan er að enska félagið varaði stuðningsmenn sína við því að vera á helstu ferðamannastöðunum í Róm þar sem þeir ættu á hættu að vera lamdir af öfgafullum stuðningsmönnum Rómarliðsins.

„Róm er borg sem hefur alltaf tekið vel á móti gestum sínum frá öllum heimshornum. Ég hef þegar rætt þetta mál við sendiherra Breta. Stuðningsmennirnir eru hér með fullvissaðir um að þeir geti komið í rólega borg sem tekur þeim opnum örmum,“ sagði borgarstjórinn en United skrifaði bréf til stuðningsmanna sinna um málið.

Um 5.000 stuðningsmenn United eiga miða á leikinn en fastlega er búist við því að yfir 1.000 stuðningsmenn liðsins mæti án miða. Það þarf ekki að fjölyrða um ofbeldið sem hefur verið í kringum ítalska boltann síðustu misserin.

Þess má geta að á síðasta ári voru þrír stuðningsmenn Middlesbrough stungnir af öfgafullum stuðningsmönnum Rómarliðsins og tíu aðrir meiddust þegar sló í brýnu á milli stuðningsmanna liðanna fyrir leik í UEFA-bikarnum.- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×