Stefán Kjærnested, forsvarsmaður Húsaleigu ehf., sendi í gær frá sér tilkynningu um að félagið hefði falið lögmönnum sínum að höfða mál á hendur dægurþættinum Íslandi í dag vegna meiðyrða.
Tilefnið er umfjöllun þáttarins á mánudaginn um aðbúnað erlendra verkamanna hér á landi. Í tilkynningunni segir að forsvarsmenn félagsins hafi ítrekað reynt að koma á framfæri ábendingum við Ísland í dag vegna málsins, en talað fyrir tómum eyrum.
Í áskorun sem lögmaður félagsins sendi Steingrími Sævari Ólafssyni, ritstjóra Íslands í dag, er skorað á þáttinn að hætta við áframhaldandi umfjöllun um Húsaleigu ehf. og forsvarsmenn þess til að baka sér ekki auknar refsi- og skaðabótakröfur í fyrirhuguðu dómsmáli.
Steingrímur Sævarr segir það alrangt að forsvarsmönnum Húsaleigu ehf. hafi ekki gefist kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri í þættinum.
„Þátturinn hefur staðið Stefáni opinn og stendur honum opinn. Við höfum ítrekað reynt að fá hann til að tjá sig um þessi mál í þættinum en hann hefur alltaf hafnað því. Þess vegna kom þessi yfirlýsing okkur mjög á óvart. En að sjálfsögðu stöndum við við allt það sem við höfum verið að segja og höldum áfram með málið.“
Ætlar í mál við Ísland í dag
