Skoðun

Enn eru til hugsjónarmenn

Ögmundur Jónasson skrifar
Mikil gerjun er nú í sparisjóðum landsins. Til þeirra var stofnað til að efla samfélagið í héraði, þjóna fólki og fyrirtækjum. Þeir sem lögðu fram stofnfé gerðu það iðulega af hugsjón enda kveðið á um það í lögum að stofnféð mætti aðeins greiða þeim til baka með eðlilegum vöxtum og verðbótum.

Gerjunin nú er af tvennum toga. Annars vegar er framhald á tilraunum ýmissa stofnfjáreigenda að gera sér mat úr stofnfjárframlagi sínu langt umfram það sem lög og reglur gera ráð fyrir. Stofnfjárhlut sinn vilja þeir geta selt á markaðsprís. Í ljós hefur komið að stofnfjárhlutum hefur að undanförnu verið ráðstafað með það í huga að framundan sé mikil uppskeruhátíð stofnfjáreigenda. Sparisjóðunum megi nú breyta í hlutafélög og þá verði græðginni allar götur greiðar. Hinn þátturinn í þessu ferli snýr að meintri „hagkvæmni" með samjöppun. Nú á að sameina og stækka. Hvar skyldi slík þróun enda? Bankarnir hafa þannig smám saman verið að hagræða sér út úr íslensku hagkerfi - eigendurnir komnir úr landi. En þrátt fyrir milljarðagróða bankanna sem nú starfa á heimsvísu er landsmönnum boðið upp á okurkjör sem aldrei fyrr.

Í lesendabréfi sem heimasíðu minni barst fyrir nokkru sagði: „Sparisjóður Svarfdæla vakti athygli á sér um daginn fyrir hvort tveggja, vinstri græna hugsun, þ.e.a.s. samfélagslega hugsun og ekki síður hitt, ótrúlegan gróða. Níu starfsmenn og níuhundruð milljónir í gróða. Ef Kaupþing er með tíuþúsund starfsmenn ættu þeir að vera með níuhundruð milljarða gróða. Hvað varð um hagkvæmni stærðarinnar? Fór hún í laun og bónusa til eigenda. Má ég biðja um marga litla sparisjóði, dreifða áhættu, fjölbreytt atvinnulíf, félagslegt réttlæti: Blandað hagkerfi Vegna Gæðanna."

Þetta eru umhugsunarverð orð. Sem betur fer eru enn til hugsjónamenn sem starfa í góðum félagslegum anda. Dæmi þar um er framganga almennra stofnfjárhafa í Sparisjóði Skagafjarðar undanfarna daga. Þeirri spurningu beini ég svo til lesenda Fréttablaðsins, hvort við þurfum á meiri samþjöppun að halda í íslensku hagkerfi. Er kannski kominn tími til að afþjappa?

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×