Kamerúninn Timothee Atouba hjá þýska liðinu Hamburg er enn og aftur búinn að koma sér í ónáð hjá forráðamönnum félagsins og var í dag sendur heim úr æfingaferðalagi liðsins í Dubai.
Atouba gagnrýndi forráðamenn félagsins harðlega í fjölmiðlum í æfingabúðunum og sagðist aldrei hafa átt að fara með liðinu til Dubai, því hann hefði þurft að vera eftir í Þýskalandi til að ná sér af meiðslum.
"Atouba hefur komið af stað ókyrrð í herbúðum liðsins með hegðun sinni og við getum ekki staðið í slíku. Því höfum við ákveðið að senda hann heim," sagði yfirmaður knattspyrnumála hjá þýska liðinu.
Atouba kom sér í vandræði í vetur þegar hann sendi stuðningsmönnum Hamburg fingurinn um leið og honum var skipt af velli í leik í Meistaradeildinni og er væntanlega ekki að auka á vinsældir sínar með nýjasta uppátæki sínu.