Erlent

Fyrstu hermennirnir í liðsauka Bandaríkjanna komnir til Bagdad

Bandarískir hermenn standa með írökskum drengum í bænum Safwan á landamærum Íraks og Kúveit. Reiknað er með að liðsauki Bandaríkjamanna fari fljótlega frá Kúveit til Íraks.
Bandarískir hermenn standa með írökskum drengum í bænum Safwan á landamærum Íraks og Kúveit. Reiknað er með að liðsauki Bandaríkjamanna fari fljótlega frá Kúveit til Íraks. MYND/AP

Fyrstu bandarísku hermennirnir í liðsaukanum sem senda á til Íraks vegna ástandsins þar eru þegar komnir til Bagdad, að sögn George Casey, yfirmanns herliðs Bandaríkjanna í Írak.

Á blaðamannafundi í dag vildi Casey ekki tilgreina hversu margir væru komnir en alls ætlar Bush-stjórnin að senda 21.500 hermenn til viðbótar við þá rúmlega 130 þúsund sem eru í landinu til þess að takast á við vaxandi ofbeldi í Írak. Íraksher mun leiða aðgerðirnar gegn uppreisnarhópum í landinu og njóta stuðnins Bandaríkjamanna við það en hinir nýju hermenn munu þó heyra undir stjórn bandarískra hershöfðingja.

Casey varaði írakskan almenning við því að árangur næðist ekki strax með aðgerðunum en vonandi yrði ástandið í landinu orðið betra í sumar eða með haustinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×