Þriðju umræðu um frumvarp til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið lauk undir miðnætti í gærkvöldi, þá hafði þingfundur staðið frá hálftíu í gærmorgun með einu hálftíma þinghléi. Valdimar Leó Friðriksson, óflokksbundinn þingmaður, talaði í gær alls í 5 klukkustundir.
Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna tók við af honum upp úr ellefu í gærkvöldi og talaði til klukkan að verða tólf. Í þriðju umræðu getur hver þingmaður haldið tvær ræður og er ræðulengdin ótakmörkuð. Níu þingmenn voru enn á mælendaskrá þegar þingfundi lauk í gærkvöldi.