Arsenal og Bolton þurfa að eigast við öðru sinni til að skera úr um hvort liðið fer áfram í 16-liða úrslit ensku bikarkeppninnar. Liðin skildu jöfn, 1-1, á Emirates-leikvanginum í dag.
Bolton hefur gott tak á Arsenal því í síðustu átta leikjum liðanna hefur Arsenal aðeins unnið einu sinni. Leikurinn í dag var enginn undantekning og náðu varnarmenn Bolton að halda hraðanum í leik Arsenal að mestu niðri.
Kevin Nolan náði forystunni fyrir gestina á 50. mínútu en Kolo Toure jafnaði metin á 77. mínútu. Liðin mætast öðru sinni miðvikudaginn 14. febrúar.