Bretar eru slegnir yfir því að þrír unglingspiltar hafa verið skotnir til bana í suðurhluta Lundúna á síðustu tólf dögum. Morðingjarnir voru aðrir unglingar. Nýjasta fórnarlambið er Billy Cox, sextán ára gamall piltur sem var skotinn til bana á heimili sínu. Vopnaðar lögreglusveitir hafa verið sendar til löggæslu í þessum borgarhluta.
Fyrir utan piltana þrjá hafa tveir fullorðnir menn verið myrtir í suðurhluta Lundúna undanfarnar vikur. Ekki er talið að tengsl séu á milli morðanna. Morð með skotvopnum eru fremur sjaldgæf í Bretlandi, þar sem lög um byssueign eru mjög ströng. Menn eru því uggandi yfir þessari þróun og yfirvöld íhuga nú hvað þurfi að gera til að stemma stigu við henni.