Að minnsta kosti sjö létu lífið og 15 særðust þegar sprengjuárás var gerð á syrgjendur í jarðarför í Bagdad í dag. Athöfnin fór fram í tjaldi og þangað læddi sér einhver inn með sprengju. Árásin var gerð í hverfi sjía á Palestínustræti í norðurhluta höfuðborgarinnar. Talið er víst að súnnímúslimar hafi framið ódæðið.
Það er einmitt á þessum slóðum sem bandarískir og íraskir hermenn eru í mikilli sókn þessa dagana til þess að reyna að minnka blóðbaðið í Bagdad. Tvær bílsprengjur sprungu í borginni fyrr í dag og kostuðu að minnsta kosti 10 manns lífið og særðu marga tugi.