Ísraelskar hersveitir hófu í dag áhlaup á nokkur hverfi í bænum Nablus á Vesturbakkanum. Vitni segja hermenn á fjölmörgum herbílum hafa umkring fjölda bygginga, þar á meðal tvö sjúkrahús í borginni. Útgöngubann hefur verið sett á og samkvæmt fréttavef BBC hefur vegum verið lokað. Tugþúsundir Palestínumanna eru lokaðir inni í bænum, vegna útgöngubannsins.
Ísraelsher segir markmiðið að finna vopnasendingar og handtaka þá sem beri ábyrgð á árásum gegn ísraelskum skotmörkum. Á Gaza ströndinni eru einnig átök, en þar eru það Palestínumenn sem berjast innbyrðis. Fjórir féllu og tugir særðust í skotbardögum milli liðsmanna Hamas samtakanna og Fatah hreyfingarinnar.