Forseti Írans hét því í dag að standa við bakið á stjórnvöldum í Súdan gegn „aðgerðum óvinarins“ og Súdan sagði að kjarnorkuáætlanir Írana eigi fullan rétt á sér.
Stuðningsyfirlýsingarnar koma í kjölfar tveggja daga heimsóknar forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejads, til Súdan. Ástæða heimsóknarinnar var að sýna stuðning við stjórnvöld í Súdan en þau horfast nú í augu við aukna gagnrýni vesturlanda vegna hegðunar sinnar í Darfur.
Ekki er vitað hvað Ahmadinejad var að tala um þegar hann vísaði í „aðgerðir óvinarins." Hann hefur þó iðulega nefnt Bandaríkin óvininn og á sennilega við þær áætlanir Sameinuðu þjóðanna, sem hann segir Bandaríkin stjórna, að koma alþjóðlegu friðargæsluliði til Súdan.
Næsti viðkomustaður Ahmadinejads verður Sádi-Arabía en sjaldgæft er að forseti Írans fari þangað þar sem Sádi-Arabía er almennt talin styðja sjónarhorn Bandaríkjanna. Búist er við því að hann eigi eftir að ræða ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs á fundum með ráðamönnum þar.
Íran og Súdan styðja hvort annað
