Þegar líffræðingurinn Dough Larsen skaut deyfingarpílu í stóran elgtarf í Juneau í Alaska, um helgina, átti hann von á því að dýrið hnigi niður. Larsen skaut tarfinn úr þyrlu, sem sveimaði rétt yfir jörðu og beið þess að hann félli. Þess í stað trylltist tarfurinn, réðst á þyrluna og stangaði hana.
Því miður, bæði fyrir tarfinn og þyrluna, stangaði hann stélskrúfu hennar. Stélskrúfur gegna því hlutverki á þyrlum að halda þeim í beinni stefnu, ef þeirra nýtur ekki við verða þyrlurnar stjórnlausar. Svo fór að þessu sinni, en þar sem þyrlan var lágt á lofti sluppu bæði Larsen og flugmaður hans ómeiddir. Elgurinn galt hinsvegar fyrir með lífi sínu.
Ekki er vitað til þess að elgur hafi áður stangað þyrlu til jarðar.