Liverpool og Chelsea tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Barcelona lagði Liverpool 1-0 á Anfield með marki Eiðs Smára Guðjohnsen, en enska liðið fer áfram á mörkum skoruðum á útivelli. Chelsea lagði Porto 2-1 með mörkum frá Arjen Robben og Michael Ballack.
Liverpool átti ekki skilið að tapa leiknum í kvöld og fékk liðið miklu betri færi en andstæðingarnir. Enska liðið átti til að mynda tvö skot í markstangirnar hjá Barcelona og þá bjargaði spænska liðið einu sinni þrisvar á marklínu í einni sókninni. Þetta kemur þó ekki að sök þegar upp er staðið og Liverpool er komið áfram á verðskuldaðan hátt eftir frábæran sigur í fyrri leiknum. Liverpool átti 17 markskot í leiknum en Barcelona 7.
Chelsea byrjaði illa gegn Porto og lenti undir 1-0 eftir stundarfjórðung. Arjen Robben jafnaði leikinn á 50. mínútu eftir skelfileg mistök markvarðar portúgalska liðsins. Hafi verið sómi af marki þess hollenska, var ekki sami glansinn yfir leikaraskap hans í fyrri hálfleiknum þar sem hann kastaði sér í völlinn í teig Porto og uppskar gult spjald. Það var svo Michael Ballack sem tryggði Chelsea sigurinn með laglegu marki á 76. mínútu, en hann hafði verið lítt áberandi í leiknum að öðru leiti.
Roma vann nokkuð óvæntan 2-0 útisigur á franska liðinu Lyon og er komið áfram samtals 2-0. Heimamenn voru slakir í leiknum og töpuðu sínum fyrsta leik á heimavelli í Meistaradeildinni síðan árið 2002. Rómverjar voru einfaldlega betri í leiknum og fengu meira að segja dæmt af sér mark með loðnum hætti. Totti og Mancini skoruðu mörk Roma.
Valencia einnig komið áfram eftir 0-0 jafntefli við Inter Milan á útivelli og kemst áfram á útimörkum eftir 2-2 jafntefli í fyrri leiknum. Ljót uppákoma varð undir lok leiksins þar sem allt logaði í slagsmálum og ljóst að þetta atvik gæti átt eftir að draga dilk á eftir sér.