Tískufyrirtækið Dolce & Gabbana ætlar að hætta öllum auglýsingum í spænskum fjölmiðlum, til þess að verja frelsi sitt til sköpunar, eins og það er orðað. Spænsk yfirvöld höfðu farið fram á að nýjasta auglýsingaherferð fyrirtækisins verði bönnuð, þar sem hún niðurlægi konur. Í yfirlýsingu frá Dolce & Gabbana segir að í því andrúmslofti ritskoðunar sem sé á Spáni, sjái menn neikvæð skilaboð, jafnvel þar sem þau sé ekki að finna.
Ein af auglýsingunum, sem Dolce & Gabbana hafa raunar afturkallað á Ítalíu, sýnir karlmann sem er ber að ofan, halda niðri konu með taki um úlnliði hennar. Annað fólk horfir áhugalausst á þetta. Mannréttindasamtökin Amnesty International gerðu athugasemd við þessa auglýsingu, þegar hún birtist í ítölskum fjölmiðlum.
Á annarri auglýsingu er karlmaður sem liggur nakinn í fjöru. Kona heldur honum niðri með því að stíga öðrum fæti á brjóst hans, á háhæluðum skóm. Ekki var gerð athugasemd við þá auglýsingu.
Yfirvöld á Spáni hafa einnig beint sjónum sínum að auglýsingum frá Georgio Armani, á barnalínu tískuhússins, Armani Junior. Í einni auglýsingunni eru tvær telpur, sex eða sjö ára sem halda hvor utan um aðra og brosa við myndavélinni. Í kvörtun yfirvalda segir að telpurnar séu málaðar og varalitaðar.