Danskir veitingamenn hyggjast verja um tveim milljörðum króna til þess að tryggja að viðskiptavinir þeirra geti haldið áfram að fá sér smók, þegar reykingar verða bannaðar á veitingastöðum í Danmörku um miðjan ágúst næstkomandi. Peningunum verður varið til þess að útbúa reykingaaðstöðu bæði innan dyra og utan.
Samkvæmt hinum nýju dönsku reglum verður bannað að reykja á öllum veitingastöðum sem eru yfir 40 fermetrar. Á minni stöðunum má því aðeins reykja að þar sé ekki borinn fram matur. Allir aðrir staðir verða að koma sér upp sérstökum reykherbergjum eða skýlum utan dyra.