Morgan Tsvangirai, leiðtogi helsta stjórnarandstöðuflokks Simbabve, var handtekinn í morgun þegar lögregla gerði áhlaup á höfuðstöðvar flokks hans í höfuðborginni Harare. Nokkrir aðrir leiðtogar stjórnarandstöðunnar voru einnig handteknir. Róbert Mugabe, forseti landsins, hefur tekið hart á stjórnarandstæðingum undanfarið en óánægja magnast nú í landinu, aðallega vegna bágs efnahagsástands.
Verðbólga er nærri sautján hundruð prósentum og um áttatíu prósent landsmanna eru án atvinnu. Tsvangirai var handtekinn, ásamt hópi bandamanna sinna, fyrr í þessum mánuði og mátti sæta harðræði í haldi lögreglu.