Forseti Zimbabwe, Robert Mugabe, hótaði í dag aðgerðum gegn þeim fyrirtækjum sem tóku þátt í tveggja daga verkfalli verkalýðsfélaga í landinu. Fá fyrirtæki tóku þátt í verkfallinu þar sem stjórnvöld höfðu varað við hefndaraðgerðum gegn þeim sem tóku þátt. Hermenn gengu um götur og pössuðu upp á að allt væri opið.
Þau fyrirtæki sem tóku þátt í verkfallinu fengu 24 klukkutíma til þess að skila inn skriflegri útskýringu á gjörðum sínum. Leiðtogar verkalýðssamtakanna segja að þeir hafi boðað til verkfallanna vegna meðferðar stjórnvalda á stjórnarandstöðunni og leiðtogum hennar. Verðbólga í Zimbabwe er rúmlega 1.700 prósent og eiga landsmenn í erfiðleikum með að fæða fjölskyldur sínar.