Ottmar Hitzfeld, þjálfari Bayern Munchen, hefur varað leikmenn sína sérstaklega við því að mynda óþarfa snertingu við ítalska framherjann Filippo Inzaghi í síðari leik liðanna í Munchen í kvöld. Hann kallar Inzaghi leikara og segir að hann muni nota hvert mögulegt tækifæri til að fiska aukaspyrnur á þýsku varnarmennina.
Áhyggjur þeirra þýsku eru ekki úr lausu lofti gripnar, því Inzaghi skoraði tvö mörk þegar Milan sló Bayern út úr keppninni með 4-1 sigri í fyrrra og hann hefur alls skorað fimm mörk í fjórum leikjum gegn þýska liðinu. Inzaghi er fimmti markahæsti maður í sögu Meistaradeildarinnar með 55 mörk í 90 leikjum.