Peter Crouch skoraði sigurmark Liverpool gegn PSV í síðari leik liðanna í Meistaradeildinni í kvöld og skaut sína menn því auðveldlega í undanúrslitin með samanlögðum 4-0 sigri á hollenska liðinu. Crouch hélt með Chelsea á sínum yngri árum og segir einvígið við liðið í undanúrslitum Meistaradeildarinnar verða mjög sérstakt.
"Þetta verður mjög sérstakt tilefni og vonandi tekst okkur að slá þá út eins og þegar við mættum þeim í keppninni síðast. Pabbi minn verður ánægður þar sem hann ber taugar til beggja liða eins og ég," sagði Crouch. "Við þurftum að klára þennan leiki í kvöld þó úrslitin úr fyrri leiknum hafi auðvitað verið einstaklega hagstæð. Strákarnir náðu að halda haus og klára þetta í kvöld, en ég er viss um að við hefðum sótt harðar að þeim ef staðan hefði verið 0-0 mikið lengur."