Taílenski konungurinn hefur náðað Svisslending sem var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að eyðileggja myndir af honum. Oliver Jufer hlaut dóm sinn í síðasta mánuði eftir að hann játaði að hafa spreyjað á fimm myndir af kónginum. Þetta var í fyrsta sinn sem útlendingur hefur verið dæmdur fyrir að móðga konunginn í Taílandi. Búist er við því að Jufer verði fluttur úr landi í kjölfar náðunarinnar.
Konungurinn í Taílandi er í hávegum hafður og fólk talar um hann eins og hálfgerðan guð. Fréttaskýrendur segja að náðunin muni aðeins bæta ímynd hans enn frekar.