Tívolí í Kaupmannahöfn verður opnað um næstu helgi og að venju er þar að finna ýmsar nýjungar. Nú gefst börnum á öllum aldri til dæmis tækifæri til þess að sigla umhverfis jörðina með Nemo, skipstjóra á kafbátnum Nautilusi. Í þessum nýja rússíbana er gusugangur, risakolkrabbar og einir tólf kafbátar.
Önnur nýjung er fjarstýrðir bílar. Þeir sáust fyrst í Tívolí árið 1926 og þóttu þá aldeilis tækniundur. Bílahúsinu var lokað árið 2004. En nú hefur það verið opnað aftur og bílarnir eru litríkari og flottari en nokkrusinni fyrr.