Erlent

Ráðist á sjálft þinghúsið

Átta biðu bana og fjölmargir slösuðust þegar öflug sprengja var sprengd í þinghúsinu í Bagdad í dag. Árásin er reiðarslag fyrir íröksku stjórnina og þau ríki sem hernámu landið því hún er táknræn fyrir hversu ástandið þar er slæmt og hve máttlítil yfirvöld eru í baráttu sinni við uppreisnarmenn.

Enn er ekki vitað hvernig sjálfsmorðsárásarmanninum tókst að komast inn á græna svæðið svonefnda þar sem þinghúsið er, en hvergi nokkurs staðar í landinu er öryggisgæsla jafn ströng. Engu að síður gat hann laumað sér inn í mötuneyti í húsinu þar sem fjöldi þingmanna sat að snæðingi og kveikja þar á vítisvél sinni. Að minnsta kosti átta létust í tilræðinu, þar af þrír þingmenn, og á þriðja tug slasaðist. Síðdegis var greint frá því að tvær sprengjur til viðbótar hefðu fundist í þinghúsinu og líklega hefði sá sem þarna var að verki verið lífvörður þingmanns úr hópi súnnía. Tilræðið var hvarvetna fordæmt í dag, meðal annars af bandarískum stjórnvöldum og framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

 

Fyrr um daginn dóu átta þegar vörubíll hlaðinn sprengiefni var sprengdur á fjölfarinni brú í norðurhluta höfuborgarinnar. Brúin rifnaði í sundur og tvö höf hennar steyptust niður í Tígris-fljótið fyrir neðan og með þeim fjölmargir bílar. Árásirnar í dag sýna betur en margt annað hversu slæmt ástandið í landinu er, ekki síst í höfuðborginni. Þar eru nú yfir hundrað þúsund bandarískir og íraskir hermenn og von á þrjátíu þúsund til viðbótar en þeir virðast lítið fá við uppreisnarhópa landsins ráðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×