Erlent

Berezovsky segist vera að undirbúa byltingu

Jónas Haraldsson skrifar
Boris Berezovsky.
Boris Berezovsky. MYND/AFP

Boris Berezovzky, einn af helstu vinum Alexanders Litvinenko, fyrrum njósnarans sem var myrtur í fyrra, sagði í viðtali við breska blaðið Guardian að hann ætlaði sér að velta Vladimir Pútin, forseta Rússlands, af stóli. Ef þyrfti, sagðist Berezovsky vera tilbúinn til þess að beita ofbeldi. Rússar hafa sagt að þeir muni hefja rannsókn á fullyrðingum Berezovskys.

Hann hefur búið sem flóttamaður í Bretlandi um nokkurra ára skeið. Hingað til hafa Bretar neitað að verða við framsalskröfum Rússa en nú er talið að það geti breyst. Samkvæmt breskum lögum mega flóttamenn ekki hvetja til byltinga í heimalöndum sínum.

Berezovsky átti góðu gengi að fagna í stjórnmálum í Rússlandi áður en hann var gerður brottrækur. Því er ljóst að hann hefur enn áhrif þar í landi. Hann er einnig milljarðamæringur en eignir hans eru metnar á 850 milljónir punda.

Aðalsaksóknari Rússlands, Yuri Chaika, sagði fréttamönnum í morgun að þeir hefðu hafið rannsókn á ummælum Berezovskys. „Ég hef þegar fyrirskipað viðkomandi yfirvöldum að hefja rannsókn á málinu þar sem þetta er augljóslega ákall um að koma stjórnvöldum frá völdum með hvaða hætti sem er.“ sagði Chaika að lokum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×