Erlent

Handleggurinn kominn á aftur

Óli Tynes skrifar
Chang Po-yo; bæði hann og krókódíllinn eru enn á lífi.
Chang Po-yo; bæði hann og krókódíllinn eru enn á lífi. MYND/AP

Læknar á Tævan hafa grætt handlegginn aftur á dýralækninn Chang Po-yo, en 200 kílóa Nílar krókódíll reif hann af honum í gær. Krókódíllinn var eitthvað veikur og Chang skaut í hann pílu með deyfilyfjum til þess að geta gefið honum lyf. Þegar hann hélt að skepnan væri sofnuð stakk hann handleggnunum í gegnum netgirðingu til þess að ná í píluna.

Krókódíllinn brá þá eldsnöggt við og reif af honum handlegginn. Krókódíllinn neitaði svo að sleppa feng sínum þartil skotið var að honum tveim skotum. Þá skyrpti hann handleggnum út úr sér. Handleggurinn var settur í kælibox og fluttur ásamt Chang á sjúkrahús, þar sem hann gekkst undir sjö klukkustunda aðgerð.

Chang er nú á batavegi og krókódíllinn er einnig á lífi, enda mun hvorugt skotanna hafa hitt. Einhver tími mun líða þartil kemur í ljós hvort dýralæknirinn fær fullan mátt í handlegginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×