Vinnueftirlitið hefur stöðvað vinnu í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar vegna loftmengunar í göngunum, og hefur þeim verið lokað. Í tvígang í síðustu viku komu menn úr göngunum með veruleg eitrunareinkenni vegna eiturefna í loftinu; fjórir menn í hvort skipti. Vegna ólofts glíma menn við andþyngsli og asma.
Þorsteinn Njálsson læknir sem starfar á Kárahnjúkum segist hafa séð fullfríska menn verða fárveika á tveimur til þremur dögum og hafa verulegar áhyggjur af þessu.
Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður starfsmanna á Kárahnjúkum, segir loftgæðin í jarðgöngunum lítil. Þarna séu margir menn að störfum og fjölmargar dísilknúnar vinnuvélar mengi loftið. Hitinn sé mikill, raki og drulla vegna steypuvinnu þyrlist upp.
Í yfirlýsingu frá Impregilo, segir að verið sé að draga úr loftmengun í göngunum.