Fótbolti

Mourinho: Við ætlum að skora á Anfield

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var sáttur við 1-0 sigur sinna manna í Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Hann segir sína menn staðráðna í því að ná að skora í síðari leiknum á Anfield í næstu viku, því það muni fara langt með að fleyta liðinu í úrslitaleikinn.

"Við erum vanir að ná að skora mark í leikjum okkar og ef við gerum það í síðari leiknum eigum við frábæra möguleika á að komast í úrslitin. Ég er viss um að Liverpool menn eru sannfærðir um að þeir geti snúið við blaðinu á heimavelli, en við erum yfir 1-0 í einvíginu og erum auk þess með sterkt varnarlið.

Mér þótti frammistaða leikmanna minna í hæsta gæðaflokki í dag. Við fengum fullt af góðum færum og skoruðum ekki fyrr en úr færi númer sex. Síðari hálfleikurinn var svo öðruvísi en sá fyrri, því þar sótti Liverpool meira og Steven Gerrard fékk fínt færi til að skora mark," sagði Mourinho og sagði sína menn hafa átt að fá vítaspyrnu í leiknum.

"Ég skil ekki af hverju við fáum ekki víti þegar um jafn augljósan hlut er að ræða. Við vorum rændir góðu færi til að komast í 2-0 í leiknum og ég vona að við þurfum ekki að grenja yfir einhverjum svona vafaatriðum í síðari leiknum eins og gerðist fyrir tveimur árum," sagði stjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×