Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur nú bætt enn í sálfræðistríðið við Jose Mourinho kollega sinn hjá Chelsea fyrir síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld. Benitez segir að Mourinho hafi eyðilagt möguleika Chelsea á Englandsmeistaratitlinum um síðustu helgi með því að gera of miklar breytingar á byrjunarliði sínu.
Mourinho er búinn að stríða Benitez undanfarið og sagði meðal annars að á meðan hans menn í Chelsea væru að spila fyrir lífi sínu á öllum vígstöðvum - væri Liverpool aðeins að spila meiningarlausa "sýningarleiki" í deildinni. Benitez svaraði strax á móti og sagði Mourinho hafa klúðrað málum um síðustu helgi.
"Mourinho kostaði þá titilinn með því að hvíla leikmenn fyrir viðureignina gegn okkur," sagði Benitez í löngu viðtali í dag og skaut um leið á Mourinho sem hefur kallað sjálfan sig "Hinn útvalda"
"Við eigum okkur líka hinn útvalda - og það eru stuðningsmenn okkar. Þegar Chelsea kom á Anfield í Meistaradeildinni síðast - sögðust leikmennirnir geta höndlað það að spila fyrir framan stuðningsmenn okkar, en annað kom á daginn. Það er erfitt fyrir öll lið að koma á Anfield og spila við 12 manna lið okkar. 12. maðurinn hjá okkur getur ekki gefið gul spjöld, en hann getur skorað mörk," sagði Benitez og vísaði til stuðnings áhorfenda Liverpool.
"Við þurfum ekki að dreifa fánum og æsa upp stemminguna hjá okkar stuðningsmönnum. Þeir þurfa enga fána til að ná sér í gírinn og koma vopnaðir stóru hjarta á leikina," sagði Benitez. Leikurinn verður að sjálfssögðu sýndur beint á Sýn annað kvöld.