Forsætisráðherra Tyrklands, Tayyip Erdogan, skoraði í dag á tyrknesku þjóðina til þess að sýna samstöðu. Ávarpið var tekið upp á laugardaginn og var sýnt í sjónvarpi í Tyrklandi í dag. Er því ætlað að slá á spennuna milli þeirra sem vilja aðskilja trú- og stjórnmál annars vegar og stuðningsmanna íslamista hins vegar. Mikill óróleiki hefur verið í landinu vegna þess að nýr forseti landsins mun líklega koma úr röðum íslamista.
Margir í Tyrklandi, sérstaklega þeir vel efnuðu og yfirmenn hersins, vilja að trú- og stjórnmál séu aðskilin. Þeir óttast að nýji forsetinn muni endurvekja trúarlega stjórnarhætti.
Tyrkneski herinn ítrekaði á föstudaginn síðastliðinn að hann myndi standa vörð um lýðræðislegt stjórnkerfi landsins. Fréttaskýrendur hafa bent á að ávarpið sé nánast hótun um valdarán ef frambjóðandi íslamista komist til valda. Herinn hefur komið fjórum ríkisstjórnum frá völdum síðan árið 1960.