Erlent

Komu sér saman um viðbrögð við loftslagsbreytingum

Jónas Haraldsson skrifar
MYND/Vísir
Sérfræðingar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hafa komið sér saman um hvað er hægt að gera til þess að bregðast við gróðurhúsaáhrifum.

Sérfræðingarnir komust að niðurstöðu eftir langar viðræður við fulltrúa Kína. Nýjum greinum var bætt í skýrsluna á síðustu stundu. Þær benda á að kjarnorka geti verið góður kostur í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum. Þjóðverjar reyndu hvað þeir gátu til þess að koma í veg fyrir að sú grein yrði sett inn en þróunarþjóðir kröfðust þess og sögðu kjarnorku ákvörðun hvers lands fyrir sig.

Kínverjar reyndu að draga úr texta skýrslunnar til þess að koma í veg fyrir að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum gætu haft áhrif á hagvöxt og uppbyggingu í landinu.

Skýrslan er lokahluti álits frá alþjóðlegri nefnd um loftslagsbreytingar. Hún verður birt í Bangkok seinna í dag. Í henni kemur fram að hlutfall gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu er að aukast og að það eigi eftir að halda áfram að aukast á komandi árum. Einnig er talið líklegt að aðalorkugjafar eigi eftir að haldast óbreyttir næstu áratugina. Nefndin hefur þegar gefið út tvo hluta af álitinu á þessu ári. Sá fyrsti fjallaði um vísindin á bakvið loftslagsbreytingar og annar hlutinn fjallaði um afleiðingar þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×