Evrópumeistarar AC Milan fengu mestar tekjur fyrir þáttöku sína í Meistaradeildinni á síðasta tímabili en peningalistinn var tilkynntur af Knattspyrnusambandi Evrópu í dag. Milan bar sigurorð af Liverpool í úrslitaleik í vor og halaði inn tæpar 40 milljónir evra með góðu gengi sínu í keppninni.
Chelsea komst í undanúrslitin í keppninni en félagið vann sér inn 34,66 milljónir evra eða 2,9 milljarða og Liverpool vann sér inn þriðju hæstu summuna - rúmar 32 milljónir evra eða um 2,7 milljarða króna.
Sevilla sigraði í Evrópukeppni félagsliða, en þar eru talsvert lægri peningaupphæðir í umferð en í Meistaradeildinni og uppskeran því aðeins 6,25 milljónir evra. Espanyol lenti í öðru sæti í þeirri keppni og fékk 5,3 milljónir evra fyrir - en inni í þessu eru reyndar ekki tekjur liðanna af heimaleikjum.
Eins og sést á listanum eru tekjur liðanna í Evrópukeppnunum ekki aðeins tengdar árangri, heldur er þar líka tekið tillit til þess hve stór markaður er í kring um félögin. Einnig er bilið milli Meistaradeildar og Evrópukeppni félagsliða gríðarlegt og dæmi um það er að lið Levski Sofia frá Búlgaríu sem tapaði öllum sex leikjum sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar - halaði inn meira en milljón evrum meira en Tottenham, sem vann alla leiki sína í riðlakeppni Evrópukeppni félagsliða og tapaði í fjórðungsúrslitum keppninnar.