Sex ár eru í dag frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin. Tæplega þrjú þúsund manns fórust þegar fjórum flugvélum var rænt - tveimur þeirra flogið á Tvíburaturnana í New York og einni á varnarmálaráðuneytið í Washington. Fjórða flugvélin skall til jarðar á engi í Pennsylvaníu. Minningarathafnir voru haldnar á öllum þremur stöðunum í dag - en það hefur verið gert ár hvert frá ódæðunum.
Á sama tíma og Bandaríkjamenn syrgja sendu al Kaída hryðjuverkasamtökin frá sér myndband þar sem Osama bin Laden lofsyngur einn flugræningjann - síðan er sýnd upptaka með honum sem mun gerð nokkrum dögum fyrir hryðjuverkin. Hann hvetur múslima til að ráðast gegn leiðtogum múslimaríkja sem styðji Vesturveldin og leiðtoga þeirra.