Fram kom á blaðamannafundi lögreglunnar að mennirnir fimm sem teknir voru hér á landi hefðu verið úrskurðaðir í mánaðar gæsluvarðhald að einum undanskildum, sem hefði verið úrskurðaður í einnar viku gæsluvarðhald. Þeir eru allir á þrítugs- og fertugsaldri og hafa allir komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála, segir lögreglan. Lögregluyfirvöld í hinum löndunum myndu taka um það ákvörðun í dag hvort krafist yrði gæsluvarðhalds yfir mönnunum. Síðar yrði ákveðið hvort farið yrði fram á framsal mannanna til Íslands.
Lögregla gerði húsleit á fimm stöðum á Íslandi í gær en vildi ekki greina frá því hvað hefði fundist þar. Enn fremur var leitað í bifreiðum. Þá gerði lögregla húsleit í Færeyjum og Danmörku og þar fundust fíkniefni.
Bráðabirgðaniðurstöður sýna að 60 kíló af fíkniefnum hefðu fundist í skútunni, meirihlutinn amfetamín en einnig 14 kíló af e-töfludufti og 1800 e-töflur. Bendir margt til að styrkleiki efnanna sé mikill. Enn fremur kom fram að íslenskir fíkniefnealögreglumenn hefðu verið starfandi erlendis vegna málsins undanfarna mánuði.

Þá sagði lögregla að skútan sem notuð var í smyglið hefði verið leigð í Evópu og henni siglt þaðan með viðkomu í Færeyjum. Verið er að flytja skútuna til Reykjavíkur þar sem nákvæmnisleit í henni fer fram.
Von er á tilkynningu frá lögreglu síðar í dag vegna málsins.