Inter vann mikilvægan 2-0 sigur á PSV Eindhoven í Meistaradeildinni í kvöld. Zlatan Ibrahimovic stal senunni en hann skoraði bæði mörk Inter. Það fyrra úr vítaspyrnu sem hann sótti sjálfur.
Seinna markið var sérlega glæsilegt, með skalla af þröngu færi. „Þegar ég sá þetta frá bekknum sýndist mér hann vera að skalla boltann aftur inn í boxið. Þegar ég skoðaði síðan upptökur af þessu er ég sannfærður um að hann var að reyna að skora," sagði Roberto Mancini, þjálfari Inter.
„Zlatan er frábær leikmaður og þegar hann nær sér á strik þá spilar allt liðið betur. Hann er fæddur sigurvegari og heldur vonandi áfram á sömu braut."
Inter tapaði fyrsta leik sínum í keppninni fyrir Fenerbache og þurfti því nauðsynlega á þessum þremur stigum að halda í kvöld.