Fernando Morientes, framherji Valencia, segir að John Terry fyrirliði Chelsea hafi viljandi reynt að meiða sig þegar liðin mættust í Meistaradeildinni í fyrra. Þá var Morientes meiddur á öxl, en í kvöld er það Terry sem spilar meiddur.
Morientes var meiddur á öxl þegar Valencia og Chelsea mættust síðast í Meistaradeildinni. Hann segir að Terry hafi viljandi reynt að meiða sig og félaga sinn í Valencia Raul Abiol - en hann var meiddur á hendi og því eðlilega viðkvæmur.
"Ég hef ekki góða reynslu af því að spila gegn Terry. Á síðustu leiktíð vissi hann að ég var meiddur á öxl og reyndi hvað eftir annað að búa til óþarfa snertingar við mig í leiknum. Albiol var líka meiddur á hendi og fékk að finna fyrir því frá Terry," sagði Morientes í samtali við Daily Mail.
Þá er bara að sjá hvort Morientes reynir að svara fyrir sig í kvöld þegar liðin mætast að nýju, en sem kunnugt er þarf Terry að spila með grímu eftir að hann kinnbeinsbrotnaði í leik á dögunum.