Í leynilegri skýrslu norsku lögreglunnar er öryggisfyrirtæki sem tveir Norðmenn stjórna sakað um að þjálfa fólk í pyntingum og að hafa tekið að sér að myrða fólk í Afganistan fyrir bandarísk stjórnvöld.
Norska sjónvarpsstöðin TV 2 birti í gær hrottalegar myndir úr þjálfunarbúðum öryggisþjónustunnar sem heitir Special Intervention Group, skammstafað SIG.
Þjálfun mannanna fer fram í stríðshrjáðum löndum eins og Afganistan og Írak. Sjónvarpsstöðin segir að í búðum þeirra séu Norðmenn, Danir og Svíar þjálfaðir sem lífverðir.
TV 2 komst yfir leynilega lögregluskýrslu þar sem segir að SIG hafi hreinlega tekið að sér morð í Afganistan.
Talsmaður SIG segir hinsvegar að þetta sé hreint bull.