Sænski landsliðsmaðurinn Christian Wilhelmsson gerði í dag fjögurra ára samning við Al Hilal í Sádí Arabíu og mun fá rúma 1,7 milljarða í laun ef hann stendur við samninginn.
Hann mun fá 31 milljón króna í mánaðalaun og skattfrítt þar að auki.
Al Hilal greiðir um 439 milljónir króna fyrir hann en hann var á samningi hjá franska liðinu Nantes en var reyndar nýverið orðaður við West Ham í ensku úrvalsdeildinni.
Al Hilal er núverandi meistari í Sádí Arabíu og hefur unnið titilinn alls ellefu sinnum.
Wilhelmsson hóf atvinnumannaferil sinn með Mjällby í heimalandi sínu árið 1997 og fór svo til Stabæk í Noregi árið 2000. Þaðan fór hann til Anderlecht árið 2003 og til Nantes þremur árum síðar. Hann náði ekki að vinna sér fast sæti í byrjunarliðinu þau tvö tímabil sem hann var í Frakklandi.
Hann var einnig lánaður til Roma á Ítalíu, Bolton á Englandi og Deportivo La Coruna á Spáni.