Tvö lið frá Norðurlöndunum áttu möguleika í kvöld að komast áfram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Álaborg frá Danmörku tókst verkefnið en Íslendingaliðið Brann er úr leik.
Brann fær þó að keppa í UEFA-bikarkeppninni á komandi keppnistímabili.
Álaborg vann samtals 4-0 sigur á Kaunas frá Litháen en síðarnefnda liðið sló út Rangers í annarri umferð forkeppninnar. Báðum viðureignunum lauk með 2-0 sigri Dananna.
Brann tapaði samanlagt 3-1 fyrir Marseille frá Frakklandi. Fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri Frakkanna í Noregi en Marseille vann 2-1 sigur á heimavelli í kvöld.
Kristján Örn Sigurðsson skoraði mark Brann í kvöld og jafnaði þar með metin í 1-1 á 74. mínútu. Hins vegar tapaði hann boltanum í bæði skiptin er Marseille skoraði sín mörk en sigurmark Frakkanna kom á lokamínútu leiksins. Mamadou Niang skoraði bæði mörk Marseille.
Ólafur Örn Bjarnason og Gylfi Einarsson voru báðir í byrjunarliði Brann en Gylfi var tekinn af velli á 65. mínútu.
Birkir Már Sævarsson og Ármann Smári Björnsson voru á bekknum hjá Brann en Birkir Már kom inn á sem varamaður á 69. mínútu.
