Fótbolti

Brann vildi hafa einkaflugvél til taks fyrir Kristján

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Örn Sigurðsson, leikmaður Brann.
Kristján Örn Sigurðsson, leikmaður Brann.

Forráðamenn Brann stungu upp á því að hafa einkaflugvél til taks fyrir Kristján Örn Sigurðsson ef til þess kæmi að hann sæi sér fært að spila með félaginu í Lettlandi í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Svo fór þó ekki en Brann tapaði fyrir Ventspils í kvöld, 2-1, en komst engu að síður áfram á marki skoruðu á útivelli. Ármann Smári Björnsson skoraði mark Brann í kvöld.

Kristján Örn og kona hans eiga von á barni þessa dagana og því vildi Kristján ekki fara úr landi svo hann gæti verið viðstaddur fæðinguna.

Mons Ivar Mjelde, þjálfari Brann, stakk svo upp á því að félagið myndi vera með einkaflugvél tilbúna á flugvellinum fyrir hann ef svo færi að hann hefði getað séð sér fært að koma á síðustu stundu.

Hins vegar á Kristján Örn við meiðsli að stríða þessa dagana og voru því afar litlar líkur á að hann gæti hvort eð er verið með.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Brann tekur til slíkra ráðstafana fyrir leikmenn sína og síðast gerðist það árið 2004.

„Það kom til greina að gera þetta líka nú en ökklameiðslin gerðu það að verkum að horfið var á endanum frá því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×