Fjórðu umferðinni í Iceland Express deild karla í körfubolta lýkur í kvöld með þremur leikjum. Stórleikur verður í vesturbænum þar sem KR tekur á móti Snæfelli í DHL höllinni.
KR-ingar eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjá leiki líkt og Grindvíkingar, sem sækja Skallagrímsmenn heim í Fjósið í Borgarnesi í kvöld. Skallagrímur er á botninum án sigurs líkt og ÍR.
Keflavík er í þriðja sætinu og tekur á móti Breiðablik í Toyotahöllinni í kvöld. Breiðablik hefur unnið einn leik í vetur þegar liðið lagði Skallagrím á heimavelli.
Leikir kvöldsins hefjast allir klukkan 19:15.