Það verður sannkallaður stórslagur í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu þegar núverandi meistarar, Manchester United, mætir Inter, toppliði ítölsku úrvalsdeildarinnar.
Þarna mætast á ný þeir Alex Ferguson, stjóri United, og Jose Mourinho, stjóri Inter en hann hefur margsinnis stýrt Chelsea gegn United á sínum ferli auk þess sem hann var stjóri Porto þegar liðið sló United úr Meistaradeildinni árið 2004.
„Það verður afar athyglisvert að mæta Jose á nýjan leik," sagði Ferguson í samtali við sjónvarpsstöð Manchester United.
„Hann sló okkur úr leik þegar hann var með Porto þannig að ég vonast til að við verðum með þær lukkudísir sem hann var með á sínu bandi þá."
Mourinho var rekinn frá Chelsea fyrir fimmtán mánuðum síðan og verður þetta í fyrsta sinn sem hann stýrir liði á Bretlandseyjunum síðan þá. En fyrst mætast liðin á San Siro og segir Ferguson að úrslit þess leiks muni skipta sköpum.
„Vonandi náum við góðum úrslitum í fyrri leiknum sem gefur okkur góða stöðu fyrir leikinn á Old Trafford. San Siro er frábær leikvangur en við höfum tvisvar tapað fyrir AC Milan í undanúrslitunum þar. Við viljum gjarnan snúa því gengi við."