„Það eru ekki enn komin jól en samt erum við farnir að gefa jólagjafir," sagði Jose Mourinho, stjóri Inter. Ítalíumeistararnir gerðu 3-3 jafntefli við Famagusta á Kýpur í kvöld.
„Ef við lítum á stöðuna í riðlinum þá erum við í góðri stöðu eftir þessi úrslit. En ef við lítum á þennan leik þá var þetta leikur sem við áttum að vinna auðveldlega. Við erum miklu betra lið," sagði Mourinho.
„Við erum mjög sókndjarft lið og það býr til pláss aftarlega. En úrslitin í dag er ekki hægt að skrifa á leikaðferðina okkar. Við töpuðum þessum leik vegna ótrúlegra einstaklingsmistaka. Það má ekki gera svona mistök."