Fótbolti

Eiður Smári: Það verður erfitt að spila á Celtic Park

Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen segir félaga sína í Barcelona ekki reikna með því að fá neitt gefins þegar þeir sækja Celtic heim í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.

"Við erum ekkert smeykir við að mæta til Glasgow, heldur þvert á móti mjög spenntir. Sumir af strákunum í liðinu segja að þetta sé einn skemmtilegasti völlurinn til að spila á sem völ er á," sagði Eiður í samtali við sjónvarpsstöð Celtic.

"Við verðum að reyna að njóta þess að spila þennan leik og allir vita hve ástríðufullir Skotarnir eru. Þetta er einn af mikilvægari leikjum tímabilsins fyrir okkur. Við erum ekki í eins góðri stöðu og við hefðum óskað í deildinni og því fær Meistaradeildin aukið vægi. Við verðum að vinna þessa leiki og komast áfram, en þegar hingað er komið í keppninni eru allir leikir jafn erfiðir. Einbeiting verður lykillinn í þessum leik," sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×